Morgunverðarbollur

Þessar bollur eru yndislega góðar og ekki skemmir fyrir að þær eru í hollari kantinum. Þegar ég hugsa um brauðbollur hugsa ég til sunnudagsmorgna og að mamma var nýbúin að baka bollur.
En það minnir mig líka á þegar ég hélt upp á 8 ára afmælið mitt. Mamma hafði séð sniðuga uppskrift í bækling sem var mig minnir sendur á flest heimili. Þar var uppskrift af brauðbollum nema þær voru settar þétt saman og búinn til karl sem var svo með ávexti og grænmeti sem fingur, augu og nef o.frv. Man hvað öllum fannst þetta geggjað flott.

Hráefni:

2 tsk þurrger

2 dl súrmjólk

1 dl vatn

1 tsk salt

2 msk repjuolía

2 dl hveitiklíð

2 1/2 dl heilhveiti

2 1/2 dl hveiti

1 egg

graskersfræ, sólblómafræ eða önnur fræ af vild.

Aðferð:

  1. Hrærið gerið út í kalda súrmjólk og heitu vatni og blandið salti, olíu, hveitiklíði, heilhveiti og hveiti saman við.

  2. Hnoðið í samfellt deig, breiðið yfir deigið og látið það hefast í 30 mínútur.

  3. Hnoðið á ný og skiptið því í tvo jafnstóra helminga. Búið til jafnþykkar lengjur úr báðum helmingum. Skerið hvora lengju í 8 bita og búið til bollur úr bitunum.

  4. Setjið á pappírsklædda bökunarplötu og látið hefast í 15-20 mínútur.

  5. Penslið með sundurslegnu eggi, passið að eggið sé ekki kalt. Stráið fræjum yfir eggin ef vill.

  6. Bakið í ca 10 mínútur við 200°C í miðjum ofni.


Elín Rún Sizemore

Íbúi á Eskifirði. Rafvirki og meistaranemi hjá Háskóla Íslands í heilsueflingu - og heimilisfræði.