Hrökkbrauð og rautt pestó
Uppskriftin af hrökkbrauðinu fékk ég úr bókinni Af bestu lyst 4. Mér finnst mjög sniðugt að eiga svona hrökkbrauð til þess grípa og narta í, krökkunum finnst þetta einnig mjög gott. Einnig er mjög gaman að hafa þetta í saumaklúbbnum, ásamt pestóinu. Pestó uppskriftina fékk ég frá kennara mínum. Ég hef sett pestóið í nokkrar minni krökkur frekar en eina stóra.
Hrökkbrauð
Hráefni:
1 dl hveiti
1/2 dl heilhveiti
1/2 dl haframjöl
1/2 tsk salt
1/2 dl graskersfræ
1/2 dl hörfræ
1/2 dl sólblómafræ
1 dl vatn
2 msk repjuolía
Aðferð:
1. Blandið hveiti, heilhveiti, haframjöli, salti og fræjum saman í skál.
2. Sjóðið vatn, hellið því ásamt olíunni í skálina og hrærið saman.
3. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og fletjið út deigið út á plötunni með kökukefli. Magnið er hæfilegt á eina plötu.
4. Skerið deigið í ferninga, til dæmis með pítsahjóli, og pikka þá með gaffli.
5. Bakið í 200°C heitum ofni í 15-20 mínútur, eða þar til kexið er stökkt og fullbakað.
Pestó
Hráefni:
125 g sólþurrkaðir tómatar
1 stk hvítlauksrif pressað
1 tsk balsamikedik
25 g fersk basil
1 tsk agavesýróp eða 1-2 döðlur
1 1/2 dl lífræn ólífuolía eða önnur kaldpressuð olía
100 g möndlur, þurr ristaðar og gróft saxaðar
um 1/2-1 tsk salt
Aðferð:
Setjið sólþurrkaða tómata, hvítlauk, balsamikedik, ferskt basil og agave/döðlur í matvinnsluvélina.
Hellið ólífuolíunni varlega út í og maukið, setjið í skál.
Grófsaxið möndlunar og bætið út í.
Bragðið til með salti.
Hægt er að nota mortél í staðinn fyrir matvinnsluvél. Ef hneturnar eru lagðar í bleyti í 1-2 klst, í staðinn fyrir að þurr rista þær, flokkast þetta pestó undir hráfæði.
Elín Rún Sizemore
Íbúi á Eskifirði. Rafvirki og meistaranemi hjá Háskóla Íslands í heilsueflingu - og heimilisfræði.