Ávaxtasalat með eggjasósu

Ég heiti Heiða Berglind

Ég er gift og á þrjú börn og 4 barnabörn.

Ég er hjúkrunarfræðingur að mennt og starfa sem slík á heilsugæslu HSA í Neskaupstað.

Uppskriftin sem ég ætla að deila með ykkur er uppskrift frá föðurömmu minni.

Amma og afi bjuggu í Geitavík á Borgarfirði eystra en þangað fór ég gjarnan í fríum með foreldrum mínum eða jafnvel ein yfir sumartímann.

Ég á margar góðar minningar um ömmu úr æsku og þónokkrar sem snúa að mat, hún var mikið í eldhúsinu að stússast enda oft margir í mat og kaffi eins og gengur og gerist í stórum  fjölskyldum.

Fyrir síðustu jól fórum við hjónin á jólahlaðborð sem er ekki sérstaklega fréttnæmt.

Á þessu jólahlaðborði var boðið upp á einhvernskonar rjóma ávaxtasalat. Þetta salat rifjaði upp salat sem ég fékk hjá ömmu í sveitinni en í minningunni var það mikið betra en þetta sem boðið var upp á á hlaðborðinu. Ég hafði því samband við systir pabba sem var með gömlu uppskriftabókina hennar ömmu og fletti hún upp á salatinu og sendi mér mynd af handskrifuðu uppskriftinni hennar. Ég bjó auðvitað til salatið og bar það fram með jólamatnum handa fólkinu mínu. Það þarf ekki að spyrja að því að það sló algjörlega í gegn.

Þetta er smá möndl en vel þess virði að gefa sér tíma og prófa.

 

Ávaxtasalat með eggjasósu

2 egg

2 msk sykur

2 msk sítrónusafi

2 msk ávaxtasafi (t.d. Safi af ávöxtum í dós)

1 msk smjör

Smá salt

Þetta er hitað í skál í vatnsbaði þar til fer að þykkna. Munið að hræra nánast stöðugt í (Þetta þarf smá þolinmæði). Þetta er svo kælt vel.

 

1 dl þeyttur rjómi

½ dós af blönduðum ávöxtum í dós eða aðrir ávextir sem þykja góðir

ég set líka ½ - 1 appelsínu og 1 epli smátt skorið saman við.

Einnig mætti setja ananas út í ef smekkur er fyrir því.

 

Því næst er eggjasósunni og þeytta rjómanum blandað saman.

Ávöxstunum er svo blandað saman við rjómann og sósuna.

 

Í uppskriftinni hennar ömmu stendur:

Gott með rjúpum og öðrum fuglum en fuglakjöt var oft á borðum hjá ömmu og afa þar sem þau voru með alifuglarækt um tíma.

Ef var afgangur af salatinu frá matnum fannst mér toppurinn að fá mér það ofan á tekex.

Njótið vel.

Heiða Berglind Svavarsdóttir

Íbúi í Neskaupstað, hjúkrúnarfræðingur hjá HSA.

Next
Next

Jarðaber í sparifötum